Dagný Erla

Fæðingarmarkþjálfi

Um Móðurafl

Hæ ég heiti Dagný Erla

Ég er fæðingarmarkþjálfi og doula en starfa einnig sem markþjálfi og hómópati. 

Hugsjón mín í fæðingarheiminum er að allar mæður og foreldrar almennt geti farið inn í fæðingu barnsins síns, full af tilhlökkun gleði og ró, án kvíða og hræðslu. 

Markmið mitt er að vera til staðar fyrir þig, styðja þig og styrkja í að eignast góða, eflandi og jafnvel umbreytandi fæðingarupplifun.

Ég hóf doulunám 2015 eftir að kynnast því í meðgöngujógakennaranámi sem ég lauk árinu áður. Æskudraumurinn var að verða ljósmóðir en ég fór aðra leið í lífinu og varð fyrst kennari, síðan náms- og starfsráðgjafi og eignaðist svo fimm börn og á því ferðalagi jókst áhuginn aftur á fæðingarveröldinni, sérstaklega eftir að hafa upplifað hversu miklu góður andlegur og líkamlegur fæðingarundirbúningur skilar varðandi upplifun af fæðingunni og líðan eftir fæðingu. 

Eftir doulunámið hélt ég áfram að bæta við mig og læra meira varðandi fæðingarundirbúning sem ég hafði kynnst og endaði á að læra á þremur stöðum í Danmörku frábærar fæðingarundirbúningsleiðir sem ég hef blandað saman við mína reynslu og búið til mína eigin aðferð sem hefur skilað mögnuðum árangri. Hún byggir einnig á fæðingarmarkþjálfun og aðferðum hypnobirthing fræðanna. Ina May er svoldið mitt Idol og hennar framlag til fæðingarmenningar og fleiri magnaðar konur í þeim efnum.

Umfram allt elska ég stóru fjölskylduna mína og að njóta samvista með henni en auk minna fimma barna á ég tvö eldri stjúpbörn og eina stjúp dótturdóttur. 

Síðast en ekki síst elska ég að vera til staðar fyrir fólk hvort sem það er til að finna öryggi sitt í fæðingu eða finna sína leið í lífinu.

Um þjónustuna

Móðurafl var stofnað árið 2018 og hefur verið með aðstöðu í Lífsgæðasetri St.Jó síðan 20.02.2020. Nafnið vísar til þess að innra með hverri konu býr afl til að fæða, umbreytast og verða móðir. 

Til þess að hún geti sótt það afl þarf að skapa henni öruggt rými. 

Rými sem gefur henni hugrekkið til að vera í aðstæðunum.

Slíkt rými, fyrir þá umbreytingu og þann innri kraft sem til þarf bæði fyrir fæðinguna og móðurhlutverkið, skapast fyrst og fremst þegar konan upplifir öryggi og ró bæði innra með sér og allt í kringum sig.

Markmið þjónustunnar er að veita stuðning, fræðslu og styrk til að auka möguleika viðkomandi á umbreytandi og eflandi fæðingarupplifun og góðu upphafi nýju mannverunnar. 

Starfsemin miðar einnig að því að vera liður í því að efla mæður í að hafa trú á eigin getu til að fæða barn en það er eitthvað sem ég hef brunnið fyrir lengi, að veita undirbúning og fræðslu sem hjálpar móðurinni, með góðan stuðning sér við hlið, að skapa þannig aðstæður innra með sér sem hið ytra, sem gera líkamanum kleift að vinna þessa mögnuðu vinnu óhindrað.

Árið 2018 þýddi ég og gaf ég út bókina ”Þegar Hermann kom í heiminn”, fallega og fræðandi fæðingarsögu fyrir börn sem var einmitt liður í því að foreldrar framtíðarinnar mættu alast upp við þessa sýn á fæðingar í stað þess að sjá þær fyrir sér sem eitthvað sem beri að hræðast.

Hér á heimasíðunni getur þú fundið yfirlit yfir þjónusturnar mínar, hvort heldur er eflandi þjálfun í fæðingarfærni, fæðingarmarkþjálfun með eða án doulustuðnings í fæðingu, sængurleguþjónustu, úrvinnslu eftir erfiða fæðingarreynslu eða almennt fæðingarspjall og þá sérstaklega ef um kvíða fyrir fæðingu er að ræða. Einnig getur þú fengið undirbúning og aðstoð á lokametrum fyrir fæðingu auk hómópatíu fyrir þá sem það kjósa eða almenna markþjálfun.

Ég legg mig fram um alúðlegan stuðning og fagmennsku. 

Hlakka til að taka á móti þér í hlýlegri aðstöðu minni í Lífsgæðasetri St. Jó í Hafnarfirði, koma til þín heim í stofu í persónu eða gegnum tölvusamskipti eða fjarfundi.