Lífsgæðasetur St. Jó
Suðurgata 41
220 Hafnarfjörður
Douluþjónusta er samfelldur stuðningur á meðgöngu, í fæðingu og eftir fæðingu, allt eftir því hver þörfin er. Doula veitir barnshafandi konu (og maka/fæðingarfélaga) tilfinningalegan, andlegan og líkamlegan stuðning og hagnýtar upplýsingar, auk þjálfunar í bjargráðum. Ef þú ræður til þín doulu, þá skuldbindur hún sig til að vera til staðar fyrir ykkur í gegnum allt fæðingarferlið í fyrirfram ákveðnum hittingum, vera á vaktinni í u.þ.b. tvær vikur fyrir og eftir áætlaðan fæðingardag sem og í skipulögðum hittingum eftir fæðingu, þess utan net og símasamband eftir þörfum. Samningur er gerður í upphafi samstarfs.
Doula er fagmanneskja sem hefur reynslu af að styðja foreldra í barneignarferlinu og foreldrar ráða til sín sem samfelldan stuðning á meðgöngu, í og eftir fæðingu. Doula styður foreldrana í þeirra óskum varðandi fæðingu barns þeirra. Doulan hittir foreldrana nokkrum sinnum á meðgöngu, kynnist þeim, þeirra óskum og þörfum, veitir fæðingarfræðslu og undirbúning, kennir öndunar- og slökunartækni og ýmislegt fleira. Veitir umönnun og andlegan og líkamlegan stuðning í fæðingunni og styður við fyrstu skrefin með nýja barninu og hlúir að móður, m.a. með úrvinnslu á fæðingarreynslunni. Doula er viðbótarstuðningur við ljósmóður og maka/fæðingarfélaga og vinnur útfrá kærleiksríkum stuðningi, þekkingu og reynslu af fæðingum en tekur ekki læknisfræðilegar ákvarðanir eða athuganir. Rannsóknir sýna fram á að viðvera doulu í fæðingu styttir meðal annars fæðingartíma, margfaldar líkurnar á að ekki komi til keisara eða annarra inngripa í fæðingu og eykur líkurnar á góðri fæðingarupplifun til muna. Þetta skapast ekki síst af því sambandi og trausti sem myndast hefur milli verðandi foreldra og doulu, fræðslunni á meðgöngu, samfelldri viðveru í fæðingu, þekkingar hennar og reynslu sem leiðir til þess að verðandi foreldrar upplifa sig öruggari og afslappaðri og vita að passað er uppá þeirra óskir varðandi fæðinguna. Doulan leggur sig fram um að auka á þægindi þeirra og er ekki síður stuðningur fyrir makann eða fæðingarfélagann sem getur þá betur einbeitt sér að atlotum við móðurina vitandi að þau fái aðstoð og upplýsingar um framvindu mála. Doulan getur einnig tekið myndir fyrir parið óski þau þess. Vegna viðveru doulu geta foreldrar svo farið í gegnum fæðingarferlið eftirá með einstkalingi sem var viðstaddur allan tímann og getur fyllt í eyðurnar ef þarf sem og hjálpað til við úrvinnslu á einstaka atvikum eða fæðingarreynslunni í heild. Doula er óhlutdrægur þriðji aðili sem getur stutt móður og maka/fæðingarfélaga í gegnum fæðingarferlið og gert þeim báðum kleift að njóta þess.
Öllum gerðum af fæðingum! Frá heimafæðingu að fyrirfram skipulögðum keisara og allt þar á milli – Mín ástríða snýst um að hámarka ánægjuna með fæðinguna sama hvernig fæðingin er þar sem margar ástæður liggja að baki mismunandi fæðingum. Mitt markmið er að þín/ykkar upplifun verði sem best og eins ánægjuleg minning og eflandi reynsla og hægt er út í lífið. Reynslan sýnir að þau pör sem hafa tekið þjálfunina hjá mér hafa nánast öll átt magnaða náttúrulega fæðingu en svo geta alltaf verið ástæður fyrir alls konar fæðingum og ég er alltaf til staðar fyrir þig/ykkur hverju sem þið standið frammi fyrir.
Hvenær sem er! Ég hef verið ráðin til konu sem var einungis komin 5 vikur á leið og allt uppí 36 vikur og í sumum tilfellum er verið að ráða doulur viku fyrir settan dag en ég mæli með að ráða douluna eins snemma og þig langar til svo þú getir notið meðgöngunnar betur og fengið stuðning í lengri tíma þar sem um sama verð er að ræða hvenær sem þú ræður douluna til þín. Í mínu tilfelli mæli ég með að ráða mig ekki seinna en í viku 28 – 32 svo við höfum tíma til að kynnast auk þess sem mín þjónusta samanstendur af 4 – 5 heimsóknum fyrir fæðingu þar sem hún samanstendur af fæðingarmarkþjálfunartímum, fræðslu og stuðningi fyrir fæðinguna sem mér finnst skila bestum árangri í fæðingunni sjálfri sem og líðan fyrir og eftir fæðingu og því mikilvægt að gefa sér góðan tíma fyrir þá vinnu, úrvinnslu og æfingar. Að því sögðu vil ég samt segja að það er aldrei of snemmt og
aldrei of seint að fá stuðning og bæta upplifun þína af þessum dásamlega tíma.
Höfuðborgarsvæðinu og nærsveitum, eins Akranesi og Suðurnesjum en þá getur bæst við örlítill kostnaður vegna keyrslu. Hvað fæðingarmarkþjálfun og stuðning varðar getur sá stuðningur þess vegna allur farið fram í gegnum netið og því ekki bundinn við ákveðinn landshluta eða land.
Bókaðu kynningarfund eða sendu mér tölvupóst á dagnyerla@modurafl.is og við finnum út úr því hvort það henti okkur að vinna saman.