Dagný Erla

Fæðingarmarkþjálfi

Sængurleguþjónusta

Það er gulls ígildi að undirbúa sig fyrir sængurleguna. Hugsa útí hvort þér finnist þú vera vel upplýst og örugg, hvernig sængurlegu þig dreymir um og hvað þurfi til svo að svo megi verða og hvernig stuðning þú komir til með að hafa þörf fyrir sem nýbökuð móðir.

Stuðningur í upphafi þessa nýja hlutverks getur skipt sköpum.

Fyrstu vikurnar eftir fæðingu nýs barns geta verið fullar af alls konar áskorunum og getur rúmað allan tilfinningaskalann. Ef einhvern tíma er þörf fyrir að læra að biðja um og þiggja aðstoð, þá er það í sængurlegunni að mínu mati. Þessi tími er tími þar sem þú upplifir gjarnan meiri gleði, frið og alsælu en þú getur auðveldlega upplifað meiri vanmátt, einmanaleika og depurð og allar þessar tilfinningar eru eðlilegar á þessum tíma en svo mikilvægt að fá stuðning svo þær megi falla í ljúfa löð.

Hvernig stuðning get ég fengið eftir fæðingu?

Sem sængurlegudoula býð ég upp á ýmis konar þjónustu sem er sérsniðin að þínum einstöku þörfum og óskum. Þú getur ráðið mig til þín til að koma og sinna þínum þörfum og veita þér uppbyggjandi aðstoð með nýburann og ýmislegt er tengist því að næra líkama þinn og sál og læra á nýtt lífsmynstur.

Heppilegt er að vera búinn að ráða hjálpina áður en barnið kemur í heiminn en velkomið er að hafa samband hvenær sem þörfin kemur upp. Eins og fyrr segir er þjónustan sniðin að þínum þörfum og hægt að velja úr og búa til mismunandi ”pakka”.

Stuðningurinn miðar að því að skapa rými fyrir móðurina til að aðlagast og takast á við nýjar aðstæður og miðar alltaf að því að vera uppbyggjandi fyrir móður/foreldra og þeirra samband og síðast en ekki síst samband móður og barns/foreldra og barns.

Dæmi um valmöguleika í þjónustu

Hér á eftir koma dæmi um þá þjónustu sem hægt er að velja úr og setja saman eftir þörfum. Oftast er þörf á og gott að vinna úr fæðingarupplifuninni og almennt er um stuðning við líðan móður eða foreldra að ræða, stuðning við brjóstagjöf og það að læra á nýburann en auk þess er hægt að fá aðstoð við eldamennsku, þvott og önnur létt heimilisstörf ef vill.

Dæmi um þjónustu:

  • Mætt með kraftmikla súpu eða næringarríkan drykk (fer eftir árstíð og aðstæðum) og fleira sem styður við uppbyggingu þína eftir meðgöngu og fæðingu.
  • Hlustað af alúð er þú tjáir þig um fæðinguna og þá gleði eða sorg sem er verið að upplifa, aðrar tilfinningar eða hvað sem þörf er fyrir.
  • Stuðningur við að hlusta á þarfir nýburans og læra inná umönnun hans ef þú vilt aðstoð við það.
  • Leiðbeiningar með ungbarnanudd og aðrar góðar leiðir til tengslamyndunar.
  • Endurnærandi fótanudd/partanudd meðan við tölum eða bara meðan þú hvílist.
  • Undirbúningur á róandi og heilandi setbaði sem dregur saman vef fæðingarvegsins og hugsanlegar rifur.
  • Stuðningur varðandi það að takast á við áskoranir brjóstagjafar.
  • Leiðbeiningar við að nudda eigin líkama sem getur verið hluti af mikilvægri heilun móður.
  • Markþjálfunarleiðir notaðar þegar þörf er á stuðningi við að skoða hug sinn varðandi áskorandi viðfangsefni eða við að taka næstu skref.
  • Hómópatía fyrir þær sem vilja nýta sér heilandi meðferð náttúrulegra hómópatalyfja til að ýta undir og flýta bataferli líkama og huga, vinna úr álgai, styðja við mjólkurframleiðslu og brjóstagjöf, vinna á brjóstabólgu og stálma á mildan hátt og fleira. Er faglærður hómópati LCPH (4 ára nám).
  • Heilsusamleg máltíð á heimili þínu/ykkar eftir uppskrift sem við höfum valið saman eða ég mæti með.
  • Heilandi kakóathöfn með hreinu, endurlífgandi, nærandi og styrkjandi kakói.
  • Leiðbeiningar varðandi róandi æfingar fyrir taugakerfið til að auka hugarró að nóttu og degi og hvernig megi gera sýnina á hið nýja líf jákvæðari.
  • Lokun á viðkvæmum og opnum líkama móðurinnar með Rebozo.
  • Umsjá ungabarns um stund meðan móðir/foreldrar ná nauðsynlegri hvíld.
  • Næturþjónusta, umsjá ungabarns og eða stuðningur við móður yfir nótt/nætur.
  • Annað eftir þörfum.

Mjúk lending eftir fæðingu

Með því að ráða til þín sængurlegudoulu tekur þú stórt skref í átt að mjúkri lendingu eftir fæðingu. Nýir foreldrar og þá sérstaklega mæður þurfa allan þann stuðning og umhyggju sem hægt er að fá.

Þegar við höfum lokið samvinnu okkar munt þú/þið búa yfir fleiri úrræðum varðandi það að huga að sjálfri/um þér, ykkur og nýfædda barninu þínu/ykkar.

”Að þiggja umhyggju og stuðning í sængurlegu, er góð fjárfesting í móðurhlutverki þínu og lífinu framundan”.

Dagný Erla Vilbergsdóttir – sængurlegudoula