Markþjálfun er fyrir alla þá sem vilja ná auknum árangri, sama á hvaða sviði það er. Markþjálfun er aðferðafræði sem hjálpar ráðþega að fá skýrari sýn á hvað honum er mikilvægt, hvernig og hvaða árangri hann vill ná og hvernig hann geti verið meðvitaður um veikleika sína en nýtt styrkleika sína til að ná þeim árangri sem hann ætlar sér.
Í markþjálfun færð þú aðstoð við að gera þér grein fyrir hvað það er sem skiptir þig máli, er mikilvægt fyrir þig og hvers vegna. Markþjálfinn spyr þig spurninga sem efla vitundarsköpun þína og gerir þér kleift að finna réttu lausnirnar fyrir þig sjálf/sjálfur. Þegar þú hefur komist að því er leiðin ákvörðuð og markþjálfi hjálpar þér við að skuldbinda þig við ferlið.
Markþjálfun er alltaf kjörinn kostur þegar maður vill leitast við að ná ákveðnum árangri, hvort sem maður vill uppfæra sjálfsmynd sína, er í atvinnuleit, vill setja sér ný markmið, vill finna hvað mann langar að verða eða finna leiðir til að leysa ákveðið verkefni sem er framundan af bestu getu. Fæðingarmarkþjálfun er til dæmis kjörin þegar þú ert barnshafandi því þá er ákveðið verkefni framundan með engan annan kost en að takast á við það.
Markþjálfi aðstoðar þig við að ná settu markmiði eða við að láta drauma þína rætast eða vera besta útgáfan af sjálfum þér, hann spyr þig kröftugra spruninga, hjálpar þér að finna drifkraftinn sem gefur þér þrautsegju til að ná settu marki eða drauma aðstæðum. Hann bendir þér á leiðir sem þú getur nýtt þér til að raungera markmiðin og veitir þér stuðning við að taka skrefin alla leið. Hversu kjörið tækifæri er það að fá stuðning við að gera hvert verkefni að eflandi reynslu sem þú gengur sterk/ur og stolt/ur frá og með aukna færni inn í framtíðarverkefni.