Fæðingarfræðsla og þjálfun
Fæðingarfræðslu og þjálfun getur þú/þið fengið heim í stofu eða mætt í Lífsgæðasetrið í Hafnarfirði í paratíma eða lítinn hóp
Markmið námskeiðsins felst í eflandi fæðingarundirbúningi, þar sem mæður og fæðingarfélagar þeirra eru undirbúin á þann hátt að þau eigi sem bestar líkur á góðri og friðsælli fæðingarupplifun, með minni verkjaupplifun og meira öryggi og trú á eigin getu auk tilhlökkunar í stað ótta. Hér er í raun um fæðingarskóla að ræða.
Þeir sem koma á námskeiðið hafa gjarnan farið á almennt námskeið þar sem þeir læra um fæðingarferlið. Á þessu námskeiði lærir þú meira um hvað þú getur gert til að auðvelda fæðinguna en engu að síður förum við vel yfir fæðingarferlið og undanfari óþarfur, einnig hægt að óska eftir ítarlegri yfirferð á því ef vill.
Um er að ræða bæði andlegan og líkamlegan undirbúning og leiðsögn. Kennd bjargráð sem gagnast gríðarvel til að hjálpa líkamanum að öðlast þann frið og þá slökun sem til þarf til að allt gangi sem best. Einnig er farið ítarlega í hvað hefur áhrif á fæðingarhormónin sem stýra fæðingunni og þú lærir hvað móðir og maki geta gert til að auka flæði þeirra. Sömuleiðis lærið þið hvað hefur heftandi áhrif á þau og geri þar með fæðinguna lengri og meira krefjandi.
Þátttakendur öðlast góðan skilning á fæðingarferlinu í heild en slíkt hefur mikið að segja og ekki hvað síst fyrir fæðingarfélagann sem fær þjálfun í hvernig hann getur verið ómetanlegur stuðningur á hverju stigi fæðingarinnar sem og við brjóstagjöf.
”Ég get fullyrt það að eftir námskeiðið losnaði ég við þann mikla kvíða sem ég hafði fyrir fæðingunni”.
Anna Kristín, sálfræðingur og móðir
Fyrirkomulag
Námskeiðinu er skipt niður í tvo 3 tíma hittinga fyrir fæðingu en auk þes hafa mæðurnar möguleika á að hittast aukalega með námskeiðshaldara og æfa sig saman í öndunaræfingum og öðru slíku þar sem það krefst þriggja vikna daglegra æfinga og svo upprifjunar síðustu vikurnar fyrir áætlaðan fæðingardag.
Eftir að allar hafa fætt býðst mæðrunum að hittast í “eftirfæðingarkaffispjalli” (tími fundinn í sameiningu eftir að allar hafa fætt og er haldinn fyrri part dags) þar sem m.a. er farið yfir fæðingarupplifunina.
Námskeiðið má einnig fá sem einstaklings/persónubundinn undirbúning:
Fyrir ykkur persónulega ein og sér 2 – 3 skipti þar sem gefst meira tækifæri til að ræða og takast á við persónulegar áskoranir.
Í öllum tilfellum er hægt að bæta við fæðingarmarkþjálfunartímum eða stuðningi.
Pör eða mæður geta einnig bókað sig í persónulega fæðingarúrvinnslu eða stuðning vegna kvíða fyrir fæðingu.